- Heildartekjur ársins 2022 hækkuðu um 114% í 85,0 milljónir dollara samanborið við 39,7 milljónir dollara á árinu 2021, vegna tekna af sölu AVT02, líftæknihliðstæðu við Humira®, sem komin er á markað í 17 löndum, auk leyfis- og áfangagreiðslna.
- Klínískar rannsóknir hófust á þremur fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum til viðbótar, AVT03 (Prolia®/Xgeva®), AVT06 (Eylea®) og AVT05 (Simponi®/Simponi Aria®).
- Sótt var um markaðsleyfi fyrir AVT04, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara® á helstu markaðssvæðum, þar á meðal í Bandaríkjunum og Evrópu.
- Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) staðfesti að afstaða til umsóknar um markaðsleyfi fyrir AVT02 myndi liggja fyrir 13. apríl nk. og jafnframt að eftirlitið hyggist hefja úttekt á verksmiðju Alvotech í Reykjavík 6. mars nk.
- Stjórnendur Alvotech munu kynna uppgjörið á fundi sem streymt verður á vefnum, fimmtudaginn 2. mars nk. kl. 13 að íslenskum tíma.
Alvotech (NASDAQ: ALVO) birti í dag uppgjör fyrir árið 2022 og kynnti nýjustu áfanga í rekstri félagsins.
Nýjustu áfangar
Í desember sl. tilkynnti Alvotech að FDA hefði staðfest að afstaða yrði tekin 13. apríl nk. til upprunalegrar umsóknar fyrirtækisins um markaðsleyfi fyrir AVT02 sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira í háum styrk. Samhliða var tilkynnt að FDA geri ekki frekari athugasemdir við umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT02 sem útskiptilega hliðstæðu við Humira í háum styrk. Samþykki krefst jákvæðrar niðurstöðu úr úttekt FDA á framleiðsluaðstöðu Alvotech í Reykjavík..Í janúar gekkst Alvotech undir úttekt Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) á góðum framleiðsluháttum og endurnýjaði stofnunin í kjölfarið GMP framleiðsluleyfi fyrirtækisins fyrir Evrópumarkað.
Í janúar sl. tilkynnti Alvotech að FDA og EMA hefðu samþykkt að taka til umfjöllunar umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT04, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara® (ustekinumab). Klínískar rannsóknir hófust á þremur líftæknilyfjahliðstæðum til viðbótar, AVT03 (fyrirhugaðri hliðstæðu við Prolia/Xgeva), AVT06 (fyrirhugaðri hliðstæðu við Eylea) og AVT05 (fyrirhugaðri hliðstæðu við Simponi/Simponi Aria).
Í febrúar 2023 kynnti Alvotech niðurstöðu lokaðs hlutafjárútboðs að fjárhæð 137,0 milljónir dollara, með þátttöku innlendra aðila. Í desember 2022 kynnti Alvotech niðurstöðu lokaðs útboðs á breytilegum víkjandi skuldabréfum að fjárhæð 70,0 milljónir dollara. Í sama mánuði samþykkti Nasdaq Iceland umsókn Alvotech um töku hlutabréfa fyrirtækisins til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland og hófust viðskipti með bréfin á Aðalmarkaðnum 8. desember 2022, en áður höfðu viðskipti með bréfin farið fram á Nasdaq Iceland First North markaðnum, frá 23. júní 2022. Þá hafa viðskipti verið með bréfin á bandaríska Nasdaq markaðnum síðan 16. júní 2022.
Helstu niðurstöður fjárhagsuppgjörs fyrir árið 2022
Ítarlegri umfjöllun um afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar.
- Þann 31. desember 2022 átti félagið 66,4 milljónir dollara í lausu fé. Þá voru heildarskuldir félagsins 764,6 milljónir dollara, að meðtöldum 19,9 milljóna dollara skammtímaskuldum.
- Heildartekjur voru 85,0 milljónir dollara á árinu 2022, samanborið við 39,7 milljónir dollara á árinu 2021.
- Kostnaðarverð seldra vara var 64,1 milljón dollara á árinu 2022. Áður en vörusala hófst var framleiðslukostnaður flokkaður með rannsóknar- og þróunarkostnaði.
- Rannsóknar- og þróunarkostnaður var 180,6 milljónir dollara á árinu 2022, samanborið við 191,0 milljón dollara á árinu 2021.
- Stjórnunarkostnaður var 186,7 milljónir dollara á árinu 2022, samanborið við 84,1 milljónir dollara á árinu 2021.
- Fjármunatekjur voru 2,5 milljónir dollara á árinu 2022, samanborið við 51,6 milljónir dollara á árinu 2021.
- Fjármagnsgjöld námu 188,4 milljónum dollara á árinu 2022, samanborið við 117,4 milljónir dollara á árinu 2021.
- Gengishagnaður nam 10,6 milljónum dollara á árinu 2022, samanborið við 2,7 milljónir dollara á árinu 2021.
- Gjaldfært tap vegna afskráningar (e. extinguishment) skulda á árinu 2022 nam 27,3 milljónum dollara, samanborið við tekjufærslu upp á 151,8 milljónir dollara á árinu 2021.
- Reiknaður tekjuskattur á árinu 2022 var jákvæður um 37,8 milljónir dollara, samanborið við 47,7 milljónir dollara á árinu 2021.
- Tap á árinu 2022 nam 513,6 milljónum dollara, eða 2,6 dollurum á hlut, samanborið við 101,5 milljónir dollara eða 0,92 dollarar á hlut á árinu 2021.
Reikningarnir í töflureikningssniði.
Streymi af uppgjörs- og kynningarfundi
Alvotech efnir til uppgjörs- og kynningarfundar sem sendur verður út í beinu vefstreymi fimmtudaginn 2. mars nk. kl. 13 að íslenskum tíma. Upplýsingar um hvernig hægt er að tengjast vefstreyminu er að finna á fjárfestasíðu Alvotech, https://investors.alvotech.com undir liðnum News and Events – Events and Presentation. Þar verður einnig hægt að nálgast upptöku af fundinum að honum loknum.