- Líftæknilyfjahliðstæðan kemur á markað um leið og einkaleyfi fyrir frumlyfið eru að falla úr gildi í Evrópu
- Félögin eru fyrst til að keppa um markað sem velti 2,4 milljörðum evra á síðasta ári, auka þar með aðgengi og lækka verð til sjúklinga
- Þetta er önnur líftæknilyfjahliðstæðan sem STADA og Alvotech setja á markað, á eftir Hukyndra, hliðstæðu við Humira í háum styrk
Alvotech (NASDAQ: ALVO) og STADA tilkynntu í dag að samstarfsfélögin hafi sett á markað Uzpruvo, fyrstu líftæknilyfjahliðstæðuna við Stelara (ustekinumab) sem hlaut markaðsleyfi í Evrópu. Sala er hafin í helstu Evrópulöndum, þar sem verð og greiðsluþáttaka heilbrigðistrygginga hefur verið samþykkt. Salan hefst um leið og mögulegt er eftir að einkaleyfi fyrir frumlyfið féllu úr gildi. Stelara er mikilvægt lyf til meðferðar við þrálátum meltingar-, húð- og gigtarsjúkdómum. Sala Uzpruvo í fleiri löndum Evrópu hefst á næstu mánuðum, um leið og opinberir aðilar hafa samþykkt verðlagningu lyfsins.
Uzpruvo var fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan við Stelara sem hlaut markaðsleyfi frá framkvæmdastjórin Evrópusambandsins, í janúar sl. Lyfið er leyft til meðferðar við sóra (psoriasis), sóraliðagigt, sóra barna (pediatric plaque psoriasis) og Chrons sjúkdómnum. Notkun til meðferðar við sáraristilbólgu hefur ekki verið leyfð þar sem einkaréttur frumlyfjaframleiðandans fyrir þeirri ábendingu er enn í gildi.
Uzpruvo er í boði í áfylltri sprautu með mjórri nál en notuð er fyrir frumlyfið, og inniheldur ekki latex til að draga úr hættu á ofnæmisviðbrögðum. Lyfið er framleitt á Íslandi.
Þetta er önnur líftæknilyfjahliðstæðan sem Alvotech og STADA setja á markað. Félögin hófu árið 2022 sölu í Evrópu á Hukyndra, líftæknilyfjahliðstæðu við Humira í háum styrk. Þá var nýlega kynnt samstarf félaganna um þróun, framleiðslu og sölu á AVT03, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Prolia og Xgeva, sem bæði innihalda denosumab. STADA selur nú alls sjö líftæknilyfjahliðstæður í Evrópu, að Uzpruvo meðtalinni.