Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að japanska heilbrigðis-, atvinnu- og velferðarráðuneytið hafi veitt Fuji Pharma Co. Ltd. („Fuji“), samstarfsaðila Alvotech í Japan, leyfi til markaðssetningar- og sölu á AVT04 (ustekinumab), sem er líftæknilyfjahliðstæða við Stelara®. AVT04 er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan við Stelara sem hlýtur markaðsleyfi á alþjóðlegum mörkuðum, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Fram til 30. júní sl. numu tólf mánaða tekjur af sölu á Stelara rúmum 10 milljörðum Bandaríkjadala (1.360 milljörðum króna) samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda þess. Er Stelara því eitt af mest seldu líftæknilyfjum heims.
AVT04 er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan sem hlotið hefur markaðsleyfi af þeim sjö fyrirhuguðu líftæknilyfjahliðstæðum sem Alvotech og Fuji vinna að í sameiningu. Alvotech sér alfarið um þróun og framleiðslu en Fuji um markaðssetningu og sölu í Japan. Samstarfssamningur Alvotech við Fuji var fyrst kynntur í nóvember 2018.
Um AVT04 (ustekinumab)
AVT04 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Stelara® (ustekinumab). Ustekinumab binst IL-12 og IL-23 frumuboðefnunum í ónæmiskerfinu, sem eru þættir í meinafræði ákveðinna ónæmismiðlaðra sjúkdóma. AVT04 var þróað í Sp2/0 frumulínunni sem er einnig notuð við framleiðslu á Stelara®. Markaðsleyfi fyrir AVT04 liggur aðeins fyrir í Japan en umsóknir um markaðsleyfi eru til umsagnar hjá lyfjayfirvöldum á öðrum stærstu markaðssvæðum.