Skip Navigation

Lyfjastofnun Evrópu tekur til umsagnar umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT06, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea

Business
15 August 2024
  • Markaðsleyfi fyrir Evrópu gæti verið veitt á þriðja fjórðungi næsta árs

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og samstarfsaðili þess, alþjóðlega lyfjafyrirtækið Advanz Pharma tilkynntu í  dag að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hafi samþykkt að taka til umsagnar umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT06, sem er fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða Alvotech við Eylea (aflibercept). Markaðsleyfi í Evrópu gæti verið veitt á þriðja ársfjórðungi 2025.

Samþykki EMA færir okkur skrefi nær því að sala hefjist á AVT06 í Evrópu, sem eru frábærar fréttir fyrir sjúklinga og meðferðaraðila. Árangur okkar í þróun fjölda líftæknilyfjahliðstæða samhliða, sýnir hvernig Alvotech getur hagnýtt þá fullkomnu aðstöðu sem félagið býr yfir til þróunar og framleiðslu, til að auka aðgengi að hagkvæmum líftæknilyfjum.

Joseph McClellan

Framkvæmdastjóri rannsókna hjá Alvotech

Þetta er mikilvægur áfangi í þróun fjölbreyttari meðferðarúrræða fyrir sjúklinga og sýnir áherslu Advanz Pharma á aukið aðgengi í Evrópu að lyfseðilsskyldum lyfjum, stungu- og innrennslislyfjum og lyfjum við sjaldgæfum sjúkdómum.

Dr. Nick Warwick

Framkvæmdastjóri rannsókna hjá Advanz Pharma

Alvotech ber ábyrgð á að þróa og framleiða AVT06. Advanz Pharma ber ábyrgð á skráningu lyfsins og hefur einkarétt til markaðssetningar í Evrópu, að undanskildu Þýskalandi og Frakklandi þar sem rétturinn er sameiginlegur. Franska lyfjafyrirtækið Biogaran hefur sameiginlegan rétt til markaðssetningar í Frakklandi. Alvotech vinnur einnig að þróun AVT29, fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea í háum styrk (8 mg). Advanz Pharma og Biogaran hafa einnig leyfi til að markaðssetja AVT29, á viðkomandi mörkuðum.

Eylea (aflibercept) er líftæknilyf sem notað er til meðferðar við augnsjúkdómum sem geta leitt til sjóntaps eða blindu, svo sem votri augnbotnahrörnun, sjóndepilsbjúgi og sjónukvilla af völdum sykursýki. Á síðasta ári námu tekjur af sölu Eylea í Evrópu um 2,9 milljörðum Bandaríkjadala (400 milljarði króna) en tekjur af sölu lyfsins voru 5,9 milljarðar dala (815 milljarðar króna) á heimsvísu, samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum Regeneron.

Í janúar sl. kynnti Alvotech jákvæðar niðurstöður klínískrar rannsóknar sem sýndu sambærilega klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT06 og samanburðarlyfsins Eylea, í sjúklingum með aldurstengda vota augnbotnahrörnun (AMD). Aðalendapunktur rannsóknarinnar var uppfylltur.

Um AVT06/AVT29 (aflibercept)

AVT06/AVT29 eru raðbrigða samrunaprótein og fyrirhugaðar líftæknilyfjahliðstæður við Eylea (aflibercept). Aflibercept binst æðaþelsvaxtarþáttum (Vascular Endothelial Growth Factors; VEGF) og getur þannig hamlað bindingu og virkjun VEGF viðtaka, nýæðamyndun og æðagegndræpi [1]. AVT06/AVT29 eru lyf í þróun og hafa ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði. Þá liggur niðurstaða eftirlitsaðila ekki fyrir um notkun lyfsins sem líftæknilyfjahliðstæðu.

Heimildir

[1] Fylgiseðill Eylea

Notkun vörumerkja

Eylea er skráð vörumerki Bayer AG í Evrópu