Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hafi samþykkt að taka til afgreiðslu umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT03, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Prolia og Xgeva, sem innihalda virka efnið denosumab.
Alvotech þróar og framleiðir AVT03. Alþjóðlegu lyfjafyrirtækin STADA og Dr. Reddy‘s hafa gert samninga við Alvotech um að annast markaðsetningu AVT03 í Evrópu og fara félögin samhliða með réttinn til markaðsetningar í Evrópusambandsríkjunum, auk Sviss og Bretlands.
Í júlí 2024 kynnti Alvotech jákvæða niðurstöðu úr staðfestingarannsókn á sjúklingum fyrir AVT03. Niðurstöðurnar sýndu sambærilega klíníska virkni, öryggi, ónæmingarverkun og lyfjahvörf AVT03 og Prolia í konum með beinþynningu eftir tíðahvörf. Þá voru niðurstöður jákvæðar úr rannsókn á lyfjahvörfum, öryggi og þolanleika AVT03 samanborið við Prolia í heilbrigðum einstaklingum og sambærilegri rannsókn á lyfjahvörfum sem bar saman áhrif AVT03 og Xgeva á heilbrigða einstaklinga.
Prolia er ætlað til meðferðar við beinþynningu eftir tíðahvörf í konum og beintapi hjá karlmönnum sem undirgangast lyfjameðferð vegna blöðruhálskirtilskrabbameins eða fullorðnum einstaklingum sem undirgangast langtíma meðferð með sykursterum. Xgeva, sem inniheldur sama virka efnið í öðru lyfjaformi, er notað til að fyrirbyggja einkenni frá beinum hjá fullorðnum með langt gengna illkynja sjúkdóma sem tengjast beinum, eða til meðferðar á fullorðnum og unglingum með þroskaða beinagrind, sem hafa greinst með risafrumuæxli í beinum.
Tekjur af sölu Prolia og Xgeva í Evrópu námu um 145 milljörðum króna á síðasta ári. Framboð líftæknilyfjahliðstæða við Prolia og Xgeva gæti aukið aðgengi sjúklinga umtalsvert, með sambærilegum eða lægri tilkostnaði.
Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðlegu beinþynningarsamtökunum (IOF) var beinn kostnaður í ESB ríkjunum, Sviss og Bretlandi á árinu 2019 vegna beinbrota sem rekja má til beinþynningar um 8.400 milljarðar króna, án þess að tekið sé tillit til áhrifa á lífsgæði sjúklinga. Um 32 milljónir Evrópubúa eru með beinþynningu, þar af um 80% konur, en talið er að um 70% kvenna sem gætu notið góðs af meðferð við beinþynningu hljóti hana ekki.
Um AVT03 (denosumab)
AVT03 er einstofna mótefni og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Prolia og Xgeva (denosumab). Denosumab beinist að og binst með mikilli sækni og sértækni við RANKL og kemur í veg fyrir virkjun viðtaka hans, svokallað RANK. Fyrirbygging RANKL/RANK tengingarinnar minnkar endurupptöku beina og beineyðingu af völdum krabbameins [1]. AVT03 er líftæknilyfjahliðstæða í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði.
Heimildir
[1] Prolia, samantekt á eiginleikum lyfs, Lyfjastofnun
[2] Xgeva, samantekt á eiginleikum lyfs, Lyfjastofnun
[3] IQVIA
[4] Key Statistics for Europe, International Osteoporosis Foundation
Notkun vörumerkja
Prolia og Xgeva eru skráð vörumerki Amgen Inc.