Skip Navigation

Evrópska lyfjastofnunin samþykkir að taka fyrir umsókn um markaðsleyfi fyrir fyrirhugaða hliðstæðu við Stelara (ustekinumab)

Business
09 February 2023
  • Álit Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) gæti legið fyrir á síðari helmingi ársins 2023
  • Frumlyfið Stelara (ustekinumab) er gefið sjúklingum með ýmsa bólgusjúkdóma

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og alþjóðlega lyfjafyrirtækið STADA Arzneimittel (STADA) tilkynntu í dag að Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hafi samþykkt að taka til umsagnar umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT04, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara (ustekinumab). Samstarfsaðilarnir gera ráð fyrir því að afstaða EMA til veitingar markaðsleyfis geti legið fyrir á síðari helmingi ársins 2023.

Það er ánægjulegt að færast skrefi nær því að geta veitt sjúklingum í Evrópu aðgang að AVT04. Markmið okkar er að mæta aukinni eftirspurn eftir hagstæðari líftæknilyfjum og hefur Alvotech byggt upp fullkomna aðstöðu sem gerir okkur kleift að vinna að þróun og framleiðslu margra lyfja samhliða.

Joseph McClellan

Framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Alvotech

Ákvörðun EMA að taka umsókn um markaðsleyfi til umsagnar er mikilvæg varða á þeirri leið að fjölga úrræðum í Evrópu fyrir lækna og sjúklinga sem glíma við bólgusjúkdóma. AVT04 yrði sterk viðbót við þær sex líftæknilyfjahliðstæður sem STADA hefur þegar sett á markað í Evrópu. Ein af þeim er adalimumab líftæknilyfjahliðstæða Alvotech með auknum styrk og sítratlausu lyfjaformi.

Bryan Kim

Yfirmaður sérlyfjadeildar STADA

Í nóvember 2019 tilkynntu Alvotech og STADA að fyrirtækin hefðu gengið til samstarfs um markaðssetningu í Evrópu á átta líftæknilyfjahliðstæðum sem Alvotech hyggst þróa og framleiða. Fyrsta lyfið í samstarfinu, Hukyndra (adalimumab) líftæknilyfjahliðstæða við Humira kom á markað á síðasta ári og er nú selt í 16 Evrópuríkjum.

Í maí 2022 tilkynnti Alvotech að rannsókn á sjúklingum með miðlungsmikinn og verulegan psoriasis hefði leitt í ljós að AVT04 hafi sömu klínísku virkni og samanburðarlyfið Stelara (ustekinumab). Fyrr í sama mánuði tilkynnti Alvotech einnig að jákvæð niðurstaða hefði fengist úr klínískri rannsókn á lyfjahvörfum AVT04 í samanburði við Stelara.