Alvotech hefur ráðið yfir 200 sérfræðinga til fyrirtækisins frá áramótum og fjöldi nýrra ráðninga er framundan. Fyrirtækið auglýsti 15 störf til umsóknar nú um helgina, en alls er 31 starf til umsóknar á vef fyrirtækisins. Megnið af þessum störfum eru á Íslandi, en fyrirtækið er einnig með starfsstöðvar í Bandaríkjunum, Sviss og Þýskalandi.
Það styttist í að fyrirtækið setji sína fyrstu vöru á markað, en um er að ræða hliðstæðu eins söluhæsta lyfs í heiminum í dag, Humira®, en Alvotech er með nokkur líftæknihliðstæðulyf í þróun.
Megnið af starfsmönnum fyrirtækisins eru sérfræðingar með háskólamenntun sem vinna við rannsóknir, þróun, gæðamál og tækniþróun, en 55% starfsmanna fyrirtækisins eru annaðhvort með Masters og/eða Doktorsgráðu.
Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech sagði: „Það er einstaklega ánægjulegt að taka á móti öllu þessu hæfileikafólki sem er tilbúið að vinna með okkur í að búa til nýja atvinnugrein á Íslandi, sem er þróun og framleiðsla líftæknilyfja. Við njótum góðs af þeirri þekkingu sem hefur skapast í líftækni á Íslandi síðustu áratugina en einnig samstarfinu við Háskóla Íslands, sem miðar að því að efla vísindastarf, þekkingarmiðlun og nýsköpun. Það er einnig gleðiefni hve okkur hefur gengið vel að fá erlenda sérfræðinga til að koma til starfa hér og jafnvel verið tilbúnir að flytjast hingað með fjölskyldur sínar í miðjum heimsfaraldri“.
Alvotech hefur gert samning við mörg helstu lyfjafyrirtæki heims um sölu og markaðssetningu á lyfjum fyrirtækisins, en lyfin verða seld undir merkjum þessara lyfjafyrirtækja.
Líftæknilyf eru flókin og dýr í þróun og framleiðslu, en með tilkomu hliðstæðulyfja eykst samkeppni, verð lækkar og fleiri einstaklingum gefst kostur á meðferð.