Skip Navigation

Alvotech og Kashiv Biosciences ganga til samstarfs um þróun og markaðssetningu fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Xolair (omalizumab)

Business
03 October 2023

Alvotech (NASDAQ: ALVO) hefur gengið til samstarfs við lyfjafyrirtækið Kashiv Biosciences LLC („Kashiv“) um þróun og markaðssetningu á AVT23 (áður nefnt ADL018), sem er fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Xolair (omalizumab). Klínísk rannsókn á AVT23 í sjúklingum stendur nú yfir.

Samningur félaganna nær til 27 ríkja Evrópusambandsins, Bretlands, Ástralíu, Kanada og Nýja Sjálands. Samkvæmt samningnum fær Alvotech einkarétt til markaðssetningar AVT23, sem verður þróað og framleitt af Kashiv. Kashiv á rétt á fyrirframgreiðslu, áfangagreiðslum og hagnaðartengdum greiðslum.

Það er mikil ánægja að ganga til þessa samstarfs um þróun og markaðssetningu omalizumab. Alvotech hefur byggt upp afburða þekkingu og aðstöðu, en eins og þessi samningur sýnir getum við kosið að sækja aukna markaðshlutdeild með því að þróa og framleiða lyf að öllu leyti innanhúss eða í samstarfi við aðra. Í þessu verkefni nýtum við reynslu Alvotech af því að tryggja markaðsaðgengi og samninga við öfluga söluaðila á öllum helstu mörkuðum.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri Alvotech

Við fögnum þessum samningi við Alvotech, um markaðssetningu á omalizumab hliðstæðunni. Með þessum samningi heldur Kashiv áfram að byggja á reynslu við þróun og framleiðslu hágæða líftæknilyfjahliðstæða fyrir samstarfsaðila um allan heim. Við væntum einnig góðrar þátttöku sjúklinga í klínískri rannsókn sem var nýlega hrundið af stokkunum og að geta senn aukið aðgengi að þessu mikilvæga meðferðarúrræði.

Dr. Sandeep Gupta

Forstjóri Kashiv

Omalizumab er einstofna mannaaðlagað mótefni sem binst sértækt við ónæmisglóbúlín E (IgE). Xolair, sem inniheldur omalizumab, er gefið við þrálátum ofnæmisastma, langvinnri nef- og skútabólgu með sepageri í nefi (CRSwNP) og langvinnum ofsakláða af óþekktum toga [1]. Tekjur af sölu Xolair á síðustu tólf mánuðum fram til 30. júní sl. nema um 3,7 milljörðum Bandaríkjadala (um 515 milljörðum króna) [2].

Um AVT23

ATV23 er fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Xolair (omalizumab). AVT23 er lyf í þróun og leyfi til markaðssetningar hefur ekki verið veitt í neinu landi. Þá liggur niðurstaða eftirlitsaðila ekki fyrir um notkun lyfsins sem líftæknilyfjahliðstæðu.

[1] https://www.ema.europa.eu/en/documents/product-information/xolair-epar-product-information_is.pdf

[2] Samkvæmt ársfjórðungsuppgjörum F. Hoffmann-La Roche Ltd og Novartis AG.

Xolair er skráð vörumerki í eigu Novartis AG.