Skip Navigation

Alvotech og Íslandsbanki gera samning um viðskiptavakt

Business
05 October 2023

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og Íslandbanki hf. hafa gert samning um viðskiptavakt á hlutabréfum Alvotech á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland („Kauphöllinni“).  Samkvæmt samningnum gefur Íslandsbanki út virk kaup og sölutilboð fyrir hlutabréf í Alvotech á Nasdaq Iceland markaðnum („Kauphöllinni“), fyrir ákveðna lágmarksfjárhæð með föstu bili milli kaup og söluverðs.

Íslandsbanki mun nú birta kaup- og sölutilboð að markaðsvirði 8 milljónir króna hið minnsta, á gengi sem má víkja að hámarki 3% frá síðasta skráðu viðskiptaverði á markaðnum. Bil milli kaup- og sölutilboða tekur mið af verðskrefatöflu Kauphallarinnar og á að haldast sem næst 1,5%, en þó ekki undir 1,45%, nema að breytingar á verðskrefatöflunni krefjist þess. Ef markaðsvirði eigin viðskipta Íslandsbanka með bréf í Alvotech vegna sjálfvirkrar pörunar er meira en 60 milljónir króna innan dags, fellur skylda um hámarksverðbil kaup- og sölutilboða í viðskiptavaktinni niður þann daginn. Ef verðbreyting á bréfum Alvotech innan viðskiptadags nemur meira en 5%, er Íslandsbanka einnig heimilt að tvöfalda hámarksverðbil kaup- og sölutilboða tímabundið þann daginn.   

Samningurinn gengur í gildi við upphaf viðskipta föstudaginn 6. október n.k. Hann er ótímabundinn og samningsaðilum er heimilt að setja samningnum upp hvenær sem er á samningstímanum með 14 daga fyrirvara.

Samningar Alvotech við Landsbankann hf. og Arion Banka hf. um viðskiptavakt með hlutabréf félagsins eru jafnframt áfram í gildi.