Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning háskólans og Alvotech við stutta athöfn í Aðalbyggingu HÍ.
Samstarfið hófst formlega árið 2018. Meðal helstu verkefna í samstarfinu má nefna:
- Hrundið var af stokkunum námsbraut fyrir meistaranema í iðnaðarlíftækni þar sem áhersla er lögð á rannsóknir og að veita hagnýta þjálfun og reynslu sem nýtist í starfi fyrir líftæknifyrirtæki.
- Alvotech hefur boðið upp á starfsþjálfun fyrir nýútskrifaða nemendur í líffræði, efnafræði, lífefnafræði, lífeindafræði, líftækni og lyfjafræði, sem leitt getur til framtíðarstarfs.
- Starfsmenn Alvotech hafa sótt meistaranám í iðnaðarlíftækni. Þá hefur starfsfólk tekið þátt í kennslu á námskeiðum í HÍ og í málstofum.
- Nemendur HÍ í iðnaðarlíftækni, lyfjafræði og öðrum greinum hafa fengið tækifæri til að vinna margvísleg rannsóknarverkefni innan vébanda Alvotech.
- Aðilarnir hafa unnið að því að styrkja innviði til rannsókna með sameiginlegum kaupum á rannsóknartækjum auk þess sem Alvotech hefur keypt þjónustu af rannsóknarstofum HÍ.
- Aðilarnir hafa skipulagt þrjú sameiginleg málþing um nýsköpun, líftækni og lyfjafræði með erlendum og innlendum fyrirlesurum.