- AVT02 sem markaðssett verður undir heitinu Simlandi er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan í samstarfi Alvotech og Bioventure sem hlýtur markaðsleyfi
Alvotech (NASDAQ: ALVO) og Bioventure, dótturfyrirtæki GlobalOne Healthcare Holding LLC, heilbrigðissviðs YAS Holding LLC, tilkynntu í dag að lyfja- og matvælaeftirlit Sádi-Arabíu (SFDA) hafi veitt leyfi til framleiðslu og sölu á AVT02, líftæknilyfjahliðstæðu við Humira® (adalimumab), sem notað er til meðferðar við liðagigt og öðrum bólgusjúkdómum. AVT02 líftæknilyfjahliðstæðan verður markaðssett undir heitinu Simlandi í Sádi-Arabíu.
Frumlyfið Humira (adalimumab) er mest selda lyf í heimi, að COVID-19 bóluefnunum undanskildum og nema heildartekjur af sölu þess meira en 3.000 milljörðum íslenskra króna á ári, samkvæmt síðustu birtu uppgjörsgögnum frá framleiðanda frumlyfsins. Líftæknilyfjahliðstæður hafa sömu klínísku virkni og líftæknilyf sem þegar eru á markaði, en eru hagkvæmari kostur fyrir sjúklinga en frumlyfin.
Alvotech hefur veitt Bioventure einkaleyfi á Simlandi í Miðausturlöndum og Norður Afríku, auk fleiri líftæknilyfjahliðstæða sem Alvotech er með í þróun, eins og áður hefur verið greint frá. Samkvæmt samningi aðilanna mun Alvotech annast þróun og framleiðslu en Bioventure sjá um markaðssetningu og sölu. AVT02 er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan í samstarfinu sem hlýtur markaðsleyfi.
Um AVT02 / Simlandi (adalimumab)
AVT02, sem verður markaðssett sem Simlandi í Sádi-Arabíu, er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Humira (adalimumab) sem virkar sem hemill á tumor necrosis factor. Sama líftæknilyfjahliðstæðan hefur hlotið markaðsleyfi í öllum 27 ríkjum Evrópusambandsins, Noregi, Íslandi, Liechtenstein, Bretlandi og Sviss undir heitinu Hukyndra, í Ástralíu undir heitinu Ciptunec / Ardalicip og í Kanada sem Simlandi. Umsóknir um markaðsleyfi eru til umsagnar í mörgum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum.