- Advanz Pharma öðlast með samningnum einkarétt til markaðssetningar í Evrópu á fimm fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech
- Samkomulagið nær til fyrirhugaðra hliðstæða við Simponi (golimumab) og Entyvio (vedolizumab), auk þriggja ónefndra líftæknilyfjahliðstæða Alvotech sem eru á fyrri stigum þróunar
Alvotech (NASDAQ: ALVO) og Advanz Pharma, alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Bretlandi, sem markaðssetur lyfseðilsskyld lyf, stungu- og innrennslislyf og lyf við sjaldgæfum sjúkdómum, tilkynntu í dag að félögin hafi undirritað nýjan samning um framleiðslu og sölu fimm fyrirhugaðra líftæknilyfjahliðstæða í Evrópu. Alvotech mun sjá um þróun og framleiðslu, en Advanz Pharma sér um skráningu, markaðssetningu og sölu í Evrópu.
Samningurinn tekur til fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæða við Simponi (golimumab) og Entyvio (vedolizumab), auk þriggja ónefndra fyrirhugaðra líftæknilyfjahliðstæða sem eru á fyrri stigum þróunar. Samkvæmt upplýsingaveitunni IQVIA er samanlögð sala þessara fimm lyfja um 570 milljarðar króna (4 milljarðar dollara) á ári á þeim mörkuðum sem samningurinn nær til.
Í febrúar sl. tilkynntu Alvotech og Advanz Pharma að félögin hefðu gert samning um markaðssetningu AVT23, fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Xolair (omalizumab). Samningurinn nær yfir Evrópska efnahagssvæðið, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjáland.